Fótbolti

Rummenigge: Blatter er háll sem áll

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Karl-Heinz Rummenigge.
Karl-Heinz Rummenigge. Mynd/Nordic Photos/Bongarts
Karl-Heinz Rummenigge, yfirmaður Bayern Munchen, gagnrýndi Sepp Blatter forseta FIFA, í dag og líkti honum við einræðisherra. Blatter situr sem fastast í forsetastólnum þrátt fyrir ýmis afglöp og mikla óánægju með hans störf í fótboltaheiminum.

„Blatter er háll sem áll og það verður aldrei hægt að ná honum," sagði Karl-Heinz Rummenigge, um Sepp Blatter í þýskum sjónvarpsþætti en Blatter hefur verið forseti FIFA frá árinu 1998.

„Það verður líka mjög erfitt að sannfæra hann um að leyfa öðrum að komast að eða fá einhverja endurnýjun í valdastöður innan FIFA. Það er synd að það skuli enn vera til einræðisherrar á þessum tímum," sagði Rummenigge.

Sepp Blatter var endurkjörinn forseti FIFA síðasta sumar og mun kjörtímabil hans ná til ársins 2015. Hann þurfti ekki að hafa mikið fyrir endurkjöri sínu eftir að andstæðingur hans  Mohamed Bin Hammam dró framboð sitt til baka eftir að hafa verið sakaður um mútur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×