Fótbolti

Neymar kláraði sitt en hvað gerir Messi?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Neymar skoraði eitt marka brasilíska liðsins Santos þegar liðið vann 3-1 sigur á japanska liðinu Kashiwa Reysol í undanúrslitum í Heimsmeistarakeppni félagsliða sem stendur nú yfir í Japan. Santos mætir annaðhvort Barcelona eða Al-Sadd frá Katar í úrslitaleiknum sem fram fer á sunnudaginn.

Evrópumeistarar Barcelona spila sinn undanúrslitaleik í fyrramálið en þeir voru mættir til Japans aðeins fjórtán klukkutímum eftir að þeir höfðu unnið 3-1 sigur á Real Madrid í El Clasico.

Knattspyrnuspekingar hafa lengi litið á þennan úrslitaleik sem hugsanlegt uppgjör á milli Neymar og Lionel Messi en eins og frægt er orðið telur knattspyrnugoðsögnin Pele að Neymar sé betri leikmaður en Messi.

Messi hefur verið kosinn besti knattspyrnumaður heims undanfarin tvö ár og er búinn að skora yfir 50 mörk með Barcelona á þessu ári. Það eru fáir sammála Pele en það gæti kannski breyst eftir uppgjörið á sunnudaginn.

Neymar kom Santos í 1-0 strax á 19. mínútu leiksins þegar hann fékk boltann umkringdur tveimur varnarmönnum,  gabbaði þá með hægri fæti, skipti yfir á vinstri fótinn og afgreiddi hann í markið með glæsilegu skoti fyrir utan teig. Það er hægt að sjá mörkin í leiknum með því að smella hér fyrir ofan.

Borges bætti við öðru marki fimm mínútum síðar og Danilo tryggði sigurinn í seinni hálfleik með marki beint úr aukaspyrnu eftir að Hiroki Sakai hafði minnkað muninn fyrir japanska liðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×