Enn og aftur hefur Mario Balotelli komið sér í klandur - í þetta sinn fyrir slagsmál við liðsfélaga á æfingu Manchester City í dag.
Þeir Balotelli og varnarmaðurinn Micah Richards munu hafa skipst á nokkrum vel völdum orðum áður en kom til átaka. Liðsfélagar þeirra skökkuðust í leikinn en Richards virtist sérstaklega ákafur þar sem honum mislíkaði það sem Balotelli sagði.
Talsmaður City gerði lítið úr atvikinu í samtali við enska fjölmiðla og sagði þá hafa tekist í hendur áður en gengið var til búningsklefa. Þeir eru þess fyrir utan sagðir vera góðir vinir.
Balotelli hefur mikið verið í fréttum undanfarin misseri fyrir hinar ýmsu uppákomur utan knattspyrnuvallarins.
Richards sagði á Twitter-síðu sinni síðdegis að það væri allt á góðu á milli hans og Balotelli. Hann skrifaði:„Me & mario are all good! these things happen in training & we shook hands after. it shows passion! #ctid“
