Enski boltinn

Sunderland vill fá Mark Hughes sem stjóra

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mark Hughes.
Mark Hughes. Mynd/Nordic Photos/Getty
Mark Hughes er líklegastur til að setjast í stjórastólinn hjá Sunderland eftir að Steve Bruce var rekinn í gær. Hughes hætti hjá Fulham í sumar eftir aðeins eitt tímabil á Craven Cottage.

BBC hefur heimildir fyrir því að Sunderland vilji fá Mark Hughes til að reyna að rífa upp gengi Sunderland sem hefur verið dapurt á þessu tímabili.

Veðbankar telja meiri líkur á því að Mark Hughes verði ráðinn heldur en Martin O'Neill sem hefur verið atvinnulaus síðan að hann hætti með Aston Villa í ágúst 2010. O'Neill hefur verið orðaður við flestar stöður sem hafa losnað síðan þá.

Mark Hughes byrjaði stjóraferil sinn á því að taka við velska landsliðinu árið 1999 en hefur síðan starfað hjá Blackburn og Manchester City auk Fulham.

Rafael Benitez og Carlo Ancelotti hafa einnig verið orðaðir við stöðuna en það eru þó ekki miklar lýkur á því að þeir taki við liðinu.

Sunderland hefur aðeins unnið 2 af 13 leikjum sínum í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu og er eins og er aðeoins tveimur stigum frá fallsæti.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×