Enski boltinn

Eigandi Manchester City ánægður með Mancini

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Roberto Mancini.
Roberto Mancini. Mynd/Nordic Photos/Getty
Sheikh Mansour, milljarðamæringur og eigandi Manchester City, hefur aðeins einu sinni mætt á heimaleik hjá liðinu en fullvissar menn um að hann fylgist vel með öllum leikjum liðsins. Hann er ánægður með frammistöðu liðsins undir stjórn Roberto Mancini.

Sheikh Mansour keypti Manchester City á sínum tíma á 210 milljónir punda og hefur síðan eytt 800 milljónum til viðbótar til að gera City að einu sterkasta félagsliði Englands.

„Stundum hitti ég stuðningsmenn City sem eru að gagnrýna störf stjórans. Hann er að mínu mati á réttri leið með liðið. Við þurfum að taka mið að því hvar félagið hefur verið og hvað liðið hefur þegar afrekað. Staðan í dag er fín," sagði Sheikh Mansour.

Manchester City er með fimm stiga forskot á toppi ensku úrvalsdeildarinnar en í mikilli hættu á að detta út úr Meistaradeildinni.

„Það er ný reynsla fyrir liðið að taka þátt í Meistaradeildinni. Við verðum að sýna því þolinmæði og við megum ekki gleyma því að aðalmarkmiðið er að vinna ensku deildina," sagði Mansour.

„Ef við náum að vinna ensku deildina mun það hafa mikil áhrif á félagið og gefa okkur sjálfstraust til að ná enn betri árangri í framtíðinni," sagði Mansour.

„Við erum ánægðir með gengi liðsins til þessa og verðum bara að sýna þolinmæði áfram," sagði eigandi City.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×