Enski boltinn

Manchester City rúllaði yfir Norwich - Balotelli skoraði með öxlinni

Stefán Árni Pálsson skrifar
Mynd/Nordic Photos/Getty
Manchester City tók á móti Norwich á  Etihad vellinum í Manchester og unnu heimamenn sannfærandi  sigur, 5-1.

Kun Agüero skoraði fyrsta mark leiksins eftir rúmlega hálftíma leik, en þá fékk hann fínu sendingu inn í teig frá Micah Richards, snéri sér í nokkra hringi og skaut síðan boltanum bókstaflega í gegnum nokkra varnarmenn og í netið.

Ótrúlegt mark hjá þessum snjalla Argentínumanni. Strax í upphafi síðari hálfleiksins skoraði Manchester City annað skrautlegt mark, en Samir Nasri átti fyrirgjöf lengst utan af velli sem endaði í netinu. John Ruddy, markvörður Norwich misreiknaði boltann og fékk á sig þetta klaufalega mark.

Heimamenn komust síðan þremur mörkum yfir þegar tuttugu mínútur voru eftir af leiknum en þar var að verki Yaya Touré sem lagði boltann snyrtilega í fjærhornið alveg óverjandi fyrir John Ruddy í marki gestanna.

Norwich náði að minnka muninn tíu mínútum fyrir leikslok þegar Steve Morison skallaði boltann í netið. Mario Balotelli skoraði síðan fjórða mark Manchester City rétt fyrir leikslok, en boltinn barst til hans á marklínunni og Ítalinn ákvað að koma boltann í netið með öxlinni. Ótrúlegur karakter hann Mario Balotelli.

Þegar komið var fram yfir venjulegan leiktíma skoraði Adam Johnson fimmta mark City í leiknum og um var að ræða algjört rúst að hætti þeirra bláklæddu.

Manchester City heldur því enn í toppsætið í deildinni með 38 stig, sjö stigum á undan næsta lið. Norwich er í tíunda sæti deildarinnar með 16 stig.



Staðan í ensku úrvalsdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×