Fótbolti

Socrates lést í nótt | Fyrirliði Brassa á HM 1982

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Brasilíska knattspyrnugoðsögnin Socrates lést á sjúkrahúsi í nótt af völdum sýkingar í meltingarfærum en hann hafði glímt við veikindin í nokkurn tíma og var tvisvar lagður inn á sjúkrahús í haust. Socrates var aðeins 57 ára gamall.

Socrates var fyrirliði brasilíska landsliðsins á HM á Spáni 1982 sem er að flestum talið vera besta landslið Brassa sem náði því ekki að verða Heimsmeistari. Socrates stýrði leik liðsins á miðjunni og skoraði auk þess nokkur stórglæsileg mörk.

Það er hægt að sjá nokkur af mörkum Brassa á HM 1982 með því að smella hér fyrir ofan en syrpan byrjar á frábæru marki Socrates.

Socrates var búinn að vera á sjúkrahúsinu í Sao Paulo síðan á fimmtudaginn þegar hann var lagður inn vegna matareitrunnar. Hann hefur viðurkennt að hafa átt í miklum vandræðum með áfengi ekki síst þegar hann var að spila.

Socrates var einnig þekktur fyrir að vera læknismentaður en hann hét fullu nafni Socrates Brasileiro Sampaio de Souza Vieira de Oliveira. Hann fór ekkert framhjá mönnum á vellinum enda hávaxinn og fullskeggjaður.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×