Fótbolti

Forsætisráðherra Búlgaríu kjörinn knattspyrnumaður ársins

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Boyko Borisov með Helle Thorning Schmidt, forsætisráðherra Danmerkur.
Boyko Borisov með Helle Thorning Schmidt, forsætisráðherra Danmerkur. Nordic Photos / AFP
Hinn 52 ára gamli Boyko Borisov var nú nýverið kjörinn knattspyrnumaður ársins í Búlgaríu. Dimitar Berbatov, leikmaður Manchester United, varð í öðru sæti. Borisov er forsætisráðherra landsins.

Borisov spilar stundum sem framherji hjá neðrideildarliðinu Vitosha Bistritsa og fékk alls 44 prósent atkvæðanna. Berbatov varð í öðru sæti með 24 prósent.

Borisov vill að kosningin verði gerð ógild þar sem þátttakandur hafi með þessu augljóslega verið að lýsa skoðun sinni á stöðu mála í búlgörsku knattspyrnunni.

„Þetta eru skilaboð um að það þurfi að taka til og endurskipuleggja búlgarska knattspyrnu. Það ætti að ógilda þessa kosningu,“ sagði Borisov við fjölmiðla í heimalandinu.

Landslið Búlgaríu varð í neðsta sæti riðils síns í undankeppni EM 2012 en liðið spilaði átta leiki og fékk aðeins fimm stig. var það versta frammistaða liðsins í undankeppni stórmóts frá upphafi.

Búlgörskum félagsliðum gekk heldur ekkert sérstaklega vel en ekkert þeirra komst áfram í riðlakeppni annað hvort Meistaradeildar Evrópu eða Evrópudeildar UEFA.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×