Erlent

Fegursta brú Noregs tengir Íslendinga við fornsögurnar

KMU skrifar
Hálogalandsbrúin
Hálogalandsbrúin
Hún hefur verið kjörin fegursta brú Noregs og er eitt helsta stolt Norðmanna. Þetta er Hálogalandsbrúin, og svo skemmtilega vill til að hún tengir Íslendinga nútímans við fornsögurnar.

Brúin er yfir Leirfjörð á Hálogalandi í Norður-Noregi og var tekin í notkun fyrir tuttugu árum. Hún er rúmlega einn kílómetri á lengd og brúarstöplarnir eru tvöfalt hærri en Hallgrímskirkja eða nærri 140 metra háir. Brúargólfið er í 45 metra hæð yfir firðinum enda þurfa stór skip að geta siglt undir brúna á leið til bæjarins Mosjöen innst í firðinum.

Í kosningu í fyrra sem helsta tækniblað Noregs efndi til um hver væri fegursta brú landsins varð þessi í efsta sæti.

Hérna er eitt af sögusviðum Egilssögu Skallagrímssonar og segja má að Hálogalandsbrúin tengi Íslendinga nútímans við fornsögurnar. Við annan brúarsporðinn hefur á síðustu árum myndast lítil Íslendinganýlenda, í sveitarfélaginu Leirfjord, en við hinn brúarsporðinn, á eynni Álöst, eða Alster, var höfðingjasetrið Sandnes. Þar bjó Þórólfur Kveldúlfsson, bróðir Skallagríms, og þar var Þórólfur drepinn af sjálfum Haraldi hárfagra Noregskonungi.

Rétt eins og í Hvalfjarðargöngum var samið um tímabundið veggjald til að greiða fyrir mannvirkið. Það tók 14 ár og lauk tollheimtunni árið 2005. Síðan hefur verið ókeypis að aka yfir Hálogalandsbrúna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×