Innlent

Lofaði brennivíni í skiptum fyrir munnmök

19 ára gamall maður var í síðasta mánuði dæmdur í Héraðsdómi Vestfjarða fyrir brot gegn barnaverndarlögum og áfengislögum en hann lét fimmtán ára gamla stúlku framkvæma á sér munnmök gegn því að lofa henni því að hann myndi útvega henni áfengi. Þá var hann einnig fundinn sekur um að hafa, nokkrum dögum áður, útvegað stúlkunni áfengi.

Í dómnum kemur fram að stúlkan hafi sjálf tilkynnt um málið til barnaverndarnefndar sem síðan kærði manninn fyrir meint kynferðisbrot. Að lokum var maðurinn þó ekki ákærður fyrir kynferðisbrot heldur fyrir brot á áfengislögum og brot á barnaverndarlögum.

Maðurinn var átján ára þegar brotið var framið og leit dómarinn til þess og þeirrar staðreyndar að um fyrsta brot var að ræða. Hann var því dæmdur í skilorðsbundið 45 daga fangelsi og til þess að greiða sakarkostnað að hluta. Þá skal hann greiða stúlkunni  150 þúsund krónur auk vaxta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×