Fótbolti

Önnur jákvæð úrslit fyrir Ísland - Norður-Írar gerðu jafntefli

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Úr leik Íslands og Belgíu í haust.
Úr leik Íslands og Belgíu í haust. Mynd/Vilhelm
Staða Íslands í undankeppni EM 2013 styrktist enn í dag er Norður-Írland náði ekki að fylgja eftir góðum sigri á Noregi um helgina. Norður-Írar máttu sætta sig við jafntefli gegn Ungverjalandi í dag.

Ísland er með þrettán stig að loknum fimm leikjum í 3. riðli undankeppninnar, þremur stigum á undan Belgíu sem vann 1-0 útisigur á botnliði Búlgaríu í dag.

Norður-Írland (7 stig) og Noregur (6 stig) koma svo næst en þau eiga bæði leik til góða. Norður-Írar komust í 2-0 forystu gegn Ungverjaland á útivelli í dag en fengu tvö mörk á sig á lokakafla leiksins, þar af jöfnunarmarkið í uppbótartíma. Hitt markið var sjálfsmark.

Riðillinn er því um það bil hálfnaður en Ísland á næst erfiðan útileik gegn Belgíu þann 4. apríl næstkomandi. Staðan er þó ansi vænleg og ef Ísland heldur sér á sigurbraut á liðið góðan möguleika á að tryggja sér farseðilinn á EM áður en Ísland mætir Noregi ytra í lokaleik riðilsins í september næstkomandi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×