Fótbolti

Dagný og félagar komnar í undanúrslit bandaríska háskólaboltans

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dagný Brynjarsdóttir.
Dagný Brynjarsdóttir.
Dagný Brynjarsdóttir og félagar hennar í Florida State eru komnar alla leið í undanúrslit bandaríska háskólaboltans eftir 3-0 sigur á Virginia í átta liða úrslitunum um helgina.

Þetta er í fyrsta sinn síðan árið 2007 sem skólalið Florida State kemst svona langt í kvennaháskólaboltanum en það lið fór alla leið í úrslitin.

Dagný, sem er leikmaður Vals og á sínu fyrsta ári í skólanum, skoraði annað mark liðsins á 71. mínútu með laglegu viðstöðulausu skoti. Þetta var fimmta mark Dagnýjar á tímabilinu en hún hefur einnig lagt upp 3 mörk í þeim 20 leikjum sem hún hefur spilað.

Mark Krikorian, þjálfari Florida State var ánægður með íslensku landsliðsstelpuna. „Ég tel að Dagný hafi jafnvel átt sinn besta leik á tímabilinu. Hún er búin að vera bæta sig með hverjum leik en það var erfitt fyrir hana að missa úr tíu daga vegna verkefna með landsliðinu," sagði Mark Krikorian.

Florida State mætir liði Stanford í undanúrslitum sem fram fer á föstudaginn kemur en í hinum leiknum mætast Duke og Wake Forest.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×