Fótbolti

Króatía og Tékkland standa vel að vígi - Jafnt hjá Bosníu og Portúgal

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Þremur fyrstu leikjunum í umspili fyrir úrslitakeppni EM 2012 er nú lokið. Þar unnu Tékkar og Króatar unnu góða sigra en Portúgalar náðu markalausu jafntefli í Bosníu.

Króatar eru komnir hálfa leið til Póllands og Úkraínu eftir öruggan 3-0 sigur á Tyrkjum og það á útivelli. Ivica Olic kom Króötum yfir strax á annarri mínútu og þeir Mario Mandzukic og Vedran Corluka skoruðu hin mörk liðsins. Tyrkir voru langt frá sínu besta í leiknum og verður að teljast ólíklegt að þeir nái einhverju úr leiknum í Króatíu.

Ófarir Guus Hiddink, þjálfara tyrkneska landsliðsins, í umspili fyrir stórmót halda því áfram þar sem að hann stýrði Rússum sem féllu úr leik í umspilinu fyrir HM 2010 er þeir töpuðu óvænt fyrir Slóveníu.

Í Tékklandi unnu heimamenn 2-0 sigur á Svartfellingum og fara þeir því með nauma forystu með sér í síðari leikinn. Tomas Rosicky, leikmaður Arsenal, lagði upp bæði mörk Tékklands í leiknum. Fyrst fyrir Vaclav Pilar og svo fyrir Tomas Sivok sem skoraði í uppbótartíma leiksins.

Bosnía og Portúgal gerðu svo markalaust jafntefli í leik þar sem gestirnir frá Portúgal voru sterkari lengst af, en án þess þó að ná að skora. Bæði lið fengu svo færi til að tryggja sér sigurinn í lokin en allt kom fyrir ekki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×