Fótbolti

Walcott: Barcelona-treyjan fer Fabregas vel

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cesc Fabregas fagnar marki með Barcelona.
Cesc Fabregas fagnar marki með Barcelona. Mynd/Nordic Photos/Getty
Theo Walcott er á því að það hafi verið hárrétt ákvörðun hjá Cesc Fabregas að fara heim til Barcelona. Þessir fyrrum liðsfélagar hjá Arsenal munu mætast í kvöld þegar enska landsliðið tekur á móti því spænska í vináttulandsleik á Wembley.

„Hann var frábær leikmaður fyrir Arsenal og bætti sig svo mikið þegar hann var með okkur. Nú er hann kominn í Barcelona-treyjuna og hún fer honum vel," sagði Theo Walcott.

„Hann vildi alltaf fara þangað því þar byrjaði hann ferilinn. Hann hefur passað vel inn í Barcelonaliðið, er að skora mörk og njóta sín," sagði Walcott.

Cesc Fabregas er með 7 mörk og 5 stoðsendingar í fyrstu 14 leikjum sínum með Barcelona þar af 5 mörk og 4 stoðsendingar í 9 deildarleikjum.

„Það verður gaman að hitta hann á ný en jafnframt verður skrýtið að spila á móti honum í fyrsta sinn. Hann er áhrifamikill leikmaður en ég er viss um að við munum ráða við hann," sagði Walcott.

Leikur Englands og Spánar hefst klukkan 17.15 og er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×