Fótbolti

Sexwale: Ummæli Blatter óheppileg

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Tokyo Sexwale hefur vakið athygli, ekki síst fyrir skemmtilegt nafn. Hann tók sér nafnið Tokyo ungur að árum þar sem hann var mikill áhugamaður um karate.
Tokyo Sexwale hefur vakið athygli, ekki síst fyrir skemmtilegt nafn. Hann tók sér nafnið Tokyo ungur að árum þar sem hann var mikill áhugamaður um karate. Nordic Photos / Getty Images
Suður-Afríkumaðurinn Tokyo Sexwale segir að ummælin sem Sepp Blatter, forseti FIFA, lét falla í gær hafi verið óheppileg.

Blatter sagði í vikunni að leysa mætti kynþáttaníð sem kæmu upp í knattspyrnuleikjum með handsali í lok leikja. Hann birti svo yfirlýsingu á heimasíðu FIFA þar sem hann sagði orð sín misskilin en síðan þá hefur hann beðist afsökunar á þeim.

Blatter birti með yfirlýsingunni mynd af sér með Sexwale, suður-afrískum baráttumanni gegn aðskilnaðarstefnu og mismunun. Hann er nú ráðherra í ríkissjórn landsins.

„Það voru mistök hjá honum að segja þetta og þess vegna voru ummælin óheppileg,“ sagði Sexwale í samtali við enska fjölmiðla.

„Það verður að gera greinamun á því sem er sagt í hita leiksins. Kynþáttaníð má ekki líðast og orðin hverfa ekki með handsali í lok leikjanna. Hr. Blatter ruglaði þessum tilfinningum saman og var full fljótur að segja að leikurinn ætti bara að halda áfram. Það var afar óheppilegt.“

„En ég held að ummæli hans komi á góðum tíma og séu til þess falinn að vekja athygli á þessu vandamáli.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×