Fótbolti

Eriksen vildi frekar fara til Ajax en til Barcelona eða AC Milan

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Christian Eriksen og Kolbeinn Sigþórsson ganga af velli með félögum sínum i Ajax.
Christian Eriksen og Kolbeinn Sigþórsson ganga af velli með félögum sínum i Ajax. Mynd/Nordic Photos/Getty
Christian Eriksen, liðsfélagi Kolbeins Sigþórssonar hjá Ajax, var á mánudagskvöldið valinn besti knattspyrnumaður Dana þrátt fyrir að vera ennþá bara 19 ára gamall.

Eriksen lék áður með Odense Boldklub sem er núverandi félag Rúriks Gíslasonar. Uffe Pedersen, yfirmaður unglingastarfs OB, segir að Eriksen hafi getað farið til stærri félaga en Ajax þegar hann yfirgaf danska félagið árið 2008.

„Það komu daglega boð frá félögum um að koma í heimsókn en hann hafði bara áhuga á því að spila fótbolta. Foreldrar hans báðu bara um að láta sig vita ef að það kæmi virkilega áhugavert boð," sagði Uffe Pedersen.

„Við fórum því á fáa staði með Christian. Við fórum til Chelsea, AC Milan, Barcelona og svo auðvitað til Ajax. Hann hefði getað samið við öll þessi félög," sagði Pedersen.

„Stóru klúbbarnir vildu vissulega fá hann en ég veit það að hann mun seinna fá tækifæri til að spila fyrir einn af stærstu klúbbunum," sagði Pedersen.

Christian Eriksen hefur leikið frábærlega með Ajax og danska landsliðinu í haust en hann er sem dæmi með 4 mörk og 8 stoðsendingar í 16 leikjum AJax í bæði hollensku deildinni og Meistaradeildinni.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×