Innlent

Segjast ekki umbera vændi - óska eftir viðræðum við Stóru systur

Eigendur vefsíðunnar einkamál.is, sem legið hefur undir ámæli frá aðgerðahópnum Stóru systur vegna meintra vændisauglýsinga, segja að vændi sé ekki liðið á síðunni. Í tilkynningu frá fyrirtækinu segir að stórfé hafi verið kostað til að vinna gegn vændi með því að þróa hugbúnað og með því að vera með starfskrafta sem vinna við að yfirfara og leita uppi vændisauglýsingar. „Skiptir þá engu hvort viðkomandi býður eða leitar eftir vændi, lokað er á viðkomandi notendur."

Þá segir að forsvarsmenn Einkamál.is séu tilbúnir að ræða við „Stóru systur" hvað þær vilja sjá til úrbóta á vefnum. „Um leið eru þær hvattar til að láta af því að hvetja til ólöglegs athæfis á stefnumótasíðunni enkamál.is".

Þá er áréttað að einkamál.is geti ekki borið ábyrgð á persónulegum samskiptum milli einstaklinga á vefnum. „Hvað þó heldur samskiptum sem færast af Einkamál.is yfir á aðrar þjónustur svo sem Facebook, MSN eða álíka þjónustur. Rétt eins og símafyrirtækjum er ekki heimilt að hlera öll símtöl, teljum við okkur ekki hafa heimild til að lesa öll samskipti milli fullorðinna einstaklinga."

Ennfremur segir að einkamál.is hafi átt í mjög góðu samstarfi við lögregluna og meðal annars aðstoðað við að upplýsa mál. „Vefurinn mun halda áfram því samstarfi og auka það eins og lögreglan óskar,“ segir einnig um leið og þess er getið að vefsíðan hafi einnig rætt við Stígamót og óskað eftir góðu samstarfi.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.