Fótbolti

Danir unnu Portúgali sannfærandi og komust á EM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Danir fagna sigri í kvöld.
Danir fagna sigri í kvöld. Mynd/Nordic Photos/Getty
Danir tryggði sér sigur í okkar riðli og sæti í úrslitakeppni EM næsta sumar með því að vinna sannfærandi 2-1 sigur á Portúgal á lokakvöldi undankeppni EM 2012. Portúgalir verða því að sætta sig við það að fara í umspilið. Danir voru ekki í alltof góðri stöðu fyrir haustleikina en unnu bæði Norðmenn og Portúgal á Parken sem vóg þungt.

Michael Krohn-Dehli og Nicklas Bendtner komu Dönum í 2-0 á Parken í kvöld en Cristiano Ronaldo minnkaði muninn með frábæru marki beint úr aukaspyrnu í uppbótartíma.

Danir unnu fjóra síðustu leiki sína í riðlinum og þar á meðal sannfærandi sigra á höfuðandstæðingum sínum á Parken, fyrst 2-0 sigur á Noregi og svo sigurinn á Portúgölum í kvöld.

Danir byrjuðu vel og Michael Silberbauer skoraði mark á 3. mínútu eftir mikinn hamagang í kjölfar aukaspyrnu en markið var dæmt af vegna brots á markverði Portúgala. Þetta var umdeildur dómur og fór ekki vel í fólkið á Parken en Danirnir gátu tekið gleði sína átta mínútum síðar þegar Michael Krohn-Dehli skoraði og nú var markið dæmt gilt.

Krohn-Dehli, sem er leikmaður Bröndby, fékk þá boltann frá Christian Eriksen út á kanti, lék inn í teiginn og skoraði með skoti sem fór af varnarmanni og í bláhornið.

Christian Eriksen átti líka mikinn þátt í öðru markinu sem Nicklas Bendtner skoraði af stuttu færi á 62. mínútu eftir sendingu frá Dennis Rommedahl.

Cristiano Ronaldo minnkaði muninn með stórglæsilegu skoti beint úr aukaspyrnu í uppbótartíma en nær komust Portúgalir ekki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×