Fótbolti

15 ára boltasækjari þjóðhetja í Svíþjóð

Stefán Árni Pálsson skrifar
Sænskir fjölmiðlar fara mikinn í dag um 15 ára boltasækjara sem stóð á hliðarlínunni í gærkvöldi þegar Svíar tóku á móti Hollendingum í forkeppni Evrópumótsins í knattspyrnu.

Svíar unnu leikinn 3-2 og komust því á lokamótið sem fram fer í Póllandi og Úkraínu á næsta ári. Sigurinn færði Svíum besta árangur allra liða sem höfnuðu í öðru sæti síns riðils og komust því á lokamótið.

Strákurinn ungi lét ljós sitt skína á 53. mínútu leiksins þegar hann kom boltanum fljótlega í hendurnar á Mikael Lustig sem tók innkast fyrir Svía. Heimamenn komust strax í upplagt marktækifæri sem endaði með marki frá Ola Toivonen en markið kom Svíum á Evrópumótið.  

Mikael Lustig, leikmaður sænska landsliðsins, sagði við fjölmiðla eftir leikinn að drengurinn ætti skilið mikið hrós.

„Ég fékk boltann strax í hendurnar, leit upp og sá strax að Elmander var kominn inn fyrir vörn Hollendinga. Ef ég hefði ekki fengið boltann svona fljótt þá værum við ekki komnir á Evrópumótið“. 

Hér að ofan má sjá öll mörkin í leiknum í gær og innkastið mikilvæga.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×