Fótbolti

Írar komust í umspilið á ótrúlegu sjálfsmarki

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Armeninn Valeri Aleksanyan sefur væntanlega ekkert mjög vel þessa dagana enda átti sjálfsmark hans gegn Írum stóran þátt í því að Armenía komst ekki í umspilið í undankeppni EM 2012.

Írland og Armenía mættust í hreinum úrslitaleik um annað sætið í B-riðli á þriðjudagskvöldið og þar með pláss í umspilinu. Írar fóru með 2-1 sigur af hólmi en komust yfir eftir að Aleksanyan skoraði sjálfsmark af stuttu færi eftir fyrirgjöf.

Hið ótrúlega er að Aleksanyan var ekki undir neinni pressu og hefði auðveldlega getað afstýrt marki. En af einhverjum óskiljanlegum ástæðum sparkar kappinn boltanum einfaldlega í eigið mark.

Richard Dunne kom svo Írum í 2-0 forystu á 59. mínútu en gestirnir minnkuðu muninn aðeins þremur mínútum síðar. Írum dugði jafntefli í leiknum, pökkuðu í vörn og náðu á endanum að tryggja sér annað sæti riðilsins.

Dregið var í umspilið í dag og fengu Írar það verkefni að mæta Eistlendingum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×