Enski boltinn

Maradona vill fá Tevez til Al Wasl

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Tevez er hér á meðal varamanna City í leiknum gegn FC Bayern.
Tevez er hér á meðal varamanna City í leiknum gegn FC Bayern. Nordic Photos / Getty Images
Enskir fjölmiðlar staðhæfa í dag að Diego Maradona og eigendur arabíska félagsins Al Wasl hafi áhuga á að „bjarga“ Carlos Tevez frá Manchester City eins og það er orðað.

Maradona og Tevez eru báðir frá Argentínu og þekkjast vel enda stutt síðan að Maradona var þjálfari argentínska landsliðsins.

Tevez var í síðustu viku vikið frá störfum í tvær vikur eftir að hann neitaði að koma inn á sem varamaður í leik Manchester City og Bayern München í Meistaradeild Evrópu. Tevez neitar því en Roberto Mancini, stjóri City, sagði eftir leikinn að Tevez myndi aldrei spila aftur í liðinu undir hans stjórn.

Tevez er nú staddur í Argentínu en þangað kom hann í gær eftir að hann var yfirheyrður á mánudaginn vegna rannsóknar City um málið.

Maradona tók nýverið við Al Wasl og hefur kvartað undan því að félagið skorti góða framherja. Engum blöðum er um það að fletta að Tevez myndi styrkja lið Al Wasl verulega.

Tevez þiggur um 250 þúsund pund í vikulaun hjá City en eigendur Al Wasl eru moldríkir og borga Maradona um þrjár milljónir punda í árslaun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×