Enski boltinn

Joorabchian: Tevez fékk ekki nógu góðan túlk

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Carlos Tevez og Roberto Mancini ræða saman fyrr á leiktíðinni.
Carlos Tevez og Roberto Mancini ræða saman fyrr á leiktíðinni. Nordic Photos / Getty Images
Kia Joorabchian, hinn skrautlegi umboðsmaður Carlos Tevez, segir að atvikið í kringum leik Manchester City og Bayern München sé öllum öðrum en Tevez sjálfum að kenna.

Eftir leikinn staðhæfði Roberto Mancini, knattspyrnustjóri City, að Tevez hafi neitað að koma inn á sem varamaður. Sjálfur bar Tevez við misskilningi í yfirlýsingu daginn eftir leik og nú hefur umboðsmaður hans tekið í sama streng.

Tevez fór í viðtal við Sky Sports eftir leikinn í Þýskalandi þar sem hann sagði að hann hafi ekki spilað þar sem „hausinn var ekki á réttum stað.“

Þetta er í það minnsta það sem túlkurinn hans í viðtalinu sagði á þeim tíma. Það var reyndar ekki túlkur, heldur starfsmaður hjá City sem sjálfur talar portúgölsku.

„Carlos talar ensku en bara ekki nógu vel til að geta verið í ítarlegu viðtali. Bæði spurningarnar sem Carlos fékk sem og svörin sem hann veitti voru vitlaust þýdd á meðan viðtalinu stóð,“ sagði Joorabchian við enska fjölmiðla í gær.

„Það má gagnrýna hann fyrir ýmislegt en ekki fyrir að vilja ekki spila. Hann hefur margoft fengið sprautur svo hann geti spilað leiki, jafnvel gegn læknisráði.“

En ekkert breytir þó viðbrögðum Roberto Mancini eftir leikinn en þau voru afar harkaleg og afdráttarlaus. Mancini sagði að Tevez væri búinn að vera í sínum augum. Joorabchian gaf í skyn í gær að viðbrögð Mancini og Manchester City við þessu máli hafi ekki verið góð.

„Við höfum séð álíka mál í allt sumar. (Cesc) Fabregas, (Samir) Nasri og (Luka) Modric lögðu allir inn félagaskiptabeiðnir í sumar og neituðu þeir að bæði ferðast og spila leiki,“ sagði Joorabchian.

„En knattspyrnustjórar þeirra tóku allt öðruvísi á þeim málum, rétt eins og félögin sjálf. Roberto er með sinn stjórnunarstíl og hann er mjög frábrugðinn þeim Alex Ferguson, Arsene Wenger eða jafnvel Carlo Ancelotti.“

„Þeir Carlos og Roberto verða að lifa með því hvernig þetta mál hefur þróast. Það verður að koma í ljós hvort þeir geti hreinsað loftið sín á milli.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×