Enski boltinn

Lindegaard tæpur fyrir Liverpool-leikinn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Markvörðurinn Anders Lindegaard hjá Manchester United á við ökklameiðsli að stríða og er óvíst hvort hann geti spilað með liðinu gegn Liverpool um aðra helgi.

Lindegaard var í byrjunarliði United gegn Norwich um helgina og stóð sig vel. Hann meiddist í leiknum en var harðákveðinn í að klára leikinn, sem hann gerði.

Lindegaard varð þó að draga sig úr landsliðshópi Danmerkur fyrir leiki liðsins gegn Kýpur og Portúgal í undankeppni EM 2012. Hann á nú í kapphlaupi við tímann um að ná sér góðum á ný fyrir leikinn gegn Liverpool.

„Það var traðkað á ökklanum mínum í upphafi leiksins og ég hefði átt að koma út af,“ sagði Lindegaard í samtali við enska fjölmiðla um málið. „En ég ákvað að halda áfram og þurfti svo að gjalda fyrir það. Þó svo að ég þurfi í dag að sitja upp í sófa var ótrúlega mikilvægt að ég náði að spila þennan leik.“

Læknar Manchester United telja að Lindegaard geti í byrjað að æfa á ný í næstu viku, í allra fyrsta lagi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×