Enski boltinn

Pabbi Wayne Rooney einn þeirra sem voru handteknir

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Wayne Rooney.
Wayne Rooney. Mynd/Nordic Photos/Getty
Pabbi Wayne Rooney er einn þeirra níu sem voru handteknir í gær grunaðir um að hafa tekið þátt í veðmálasvindli í kringum leik Motherwell og Hearts í skosku úrvalsdeildinni þann 14. desember síðastliðinn. Steve Jennings, leikmaður skoska úrvalsdeildarfélagsins Motherwell, er líka í þessum hópi.

Grunsamlega mikið var um veðmál frá Liverpool-svæðinu um að leikmaður í leiknum yrði rekinn af velli og var Jennings rekinn af velli seint í leiknum fyrir grófa tæklingu og dónaleg ummæli í garð dómara leiksins.

Jennings var þegar kominn með áminningu þegar hann braut af sér í lok leiksins og fékk beint rautt spjald. Hann hraunaði líka yfir dómarann Stevie O'Reilly í framhaldinu en Motherwell tapaði leiknum 1-2 á heimavelli.

Í yfirlýsingu frá lögreglunni kemur fram að þeir sem voru handteknir eru 29 ára gamall maður frá Bootle, 48 ára gamall maður frá West Derby, 54 ára gamall maður frá Norris Green, 26 ára gamall maður frá Croxteth, 22 ára gamall maður frá Kirkdale, 31 árs gamall maður Litherland, 68 ára gamall maður frá Fazakerley, 36 ára gamall maður frá Kirkby og 26 ára gamall maður frá Glasgow.

Steve Jennings er 26 ára gamall og kemur frá Liverpool-svæðinu. Hann kom til Motherwell frá Tranmere fyrir tveimur árum síðan. Jennings neitar öllum sakargiftum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×