Fótbolti

Forseti Santos er ekkert að grínast með að fá Pele til spila á ný

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pele.
Pele. Mynd/Nordic Photos/Getty
Luis Alvaro de Oliveira Ribeiro, forseti Santos frá Brasilíu, er full alvara með baráttu sinni fyrir því að Pele spili einu sinni enn fyrir Santos-liðið. Pele er orðinn 69 ára gamall og lagði skóna á hilluna fyrir 34 árum en það er enn von um að hann verði með Santos í Heimsmeistarakeppni félagsliða í desember.

„Pele tók vel í þetta og lofaði að koma sér í form svo að hann gæti spilað í nokkrar mínútur," sagði Ribeiro í viðtali við brasilíska útvarpsstöð.

„Ég hef talað við Muricy Ramalho þjálfara og nú stendur þetta bara og fellur með Pele sjálfum. Hann mun allavega fá treyju númer tíu," sagði Ribeiro.

„Pele varð þrisvar sinnum heimsmeistari landsliða en aðeins tvisvar sinnum heimsmeistari félagsliða. Nú á hann möguleika á að verða líka heimsmeistari félagsliða í þriðja sinn og það 48 árum síðar," sagði Ribeiro en Pele vann HM með Brasilíu 1958, 1962 og 1970 og varð heimsmeistari félagsliða með Santos 1962 og 1963.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×