Fótbolti

Kolbeinn svarar sínum gamla þjálfara fullum hálsi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Kolbeinn Sigþórsson gefur ekki mikið fyrir orð Gertjan Verbeek, síns gamla þjálfara hjá AZ Alkmaar, sem efaðist um hvort að Kolbeinn væri nógu sterkur fyrir hollensku úrvalsdeildina.

Kolbeinn fór frá AZ til Ajax nú í sumar en varð fyrir því óláni að ökklabrotna á dögunum í leik með Ajax. Verður hann frá keppni þangað til í janúar að minnsta kosti.

Sagði Verbeek að hann væri ekki viss um hvort að Kolbeinn hefði líkamlegan styrk til að takast á við það að spila með stórliði Ajax.

„Að sjálfsögðu hef ég það sem þarf til,“ sagði Kolbeinn í samtali við hollenska blaðið De Telegraaf. „Ég bý ekki aðeins yfir líkamlegum styrk heldur andlegum einnig.“

„Ég sýndi það þegar ég spilaði undir stjórn Verbeek og svo aftur fyrstu mánuði mína hjá Ajax.“

„Fyrr á þessu ári var Verbeek ósammála mér um hvaða stöðu ég ætti að spila í. Og nú þykist hann vita allt um mín mál þegar að ég er hjá Ajax. Það er algerlega fáránlegt.“

„Í dag er ég á réttum stað og hjá réttum þjálfara. Ég mun gera allt sem ég get til að koma til baka eins öflugur og ég get. Ég vil halda áfram að skora mörk og vinna leiki fyrir Ajax, til að gera stuðningsmennina ánægða.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×