Fótbolti

Gríðarleg vonbrigði fyrir Mawejje og félaga

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Tony Mawejje í leik með ÍBV.
Tony Mawejje í leik með ÍBV. Mynd/Daníel
Úganda mistókst að tryggja sér í dag sigur í sínum riðli í undankeppni Afríkukeppninnar í knattspyrnu sem fer fram á næsta ári. Tony Mawejje, leikmaður ÍBV, er fastamaður í landsliði Úganda.

Úganda mætti Kenía í dag og dugði sigur til að tryggja sér efsta sæti riðilsins og tryggja sér þar með sæti í úrslitakeppninni í fyrsta sinn síðan 1978. Það ár komst Úganda alla leið í úrslitaleikinn en hefur ekki komist aftur í hóp þeirra bestu síðan þá.

Þrátt fyrir að lið Úganda fékk mýgrút góðra marktækifæra til að skora í dag endaði leikurinn með markalausu jafntefli. Angóla vann á sama tíma 2-0 sigur á Gíneu-Bissá og kom sér þar með upp í efsta sæti riðilsins en undankeppninni lauk í dag.

Þar með varð ljóst að Úganda er úr leik í keppninni. Liðið kemst heldur ekki áfram sem eitt þeirra liða sem bestum árangri náði af þeim sem urðu í öðru sæti sinna riðla.

Eitt stærsta lið álfunnar síðustu ár, landslið Nígeríu, er þó úr leik og kemst ekki í úrslitakeppnina en það var ljóst eftir að liðið gerði 2-2 jafntefli við Gíneu í dag. Gínea tryggði sér jafntefli með marki á 96. mínútu og þar með sigurinn í riðlinum. Um leið sá liðið til þess að Nígería ætti engan möguleika á að komast áfram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×