Enski boltinn

Greint frá nafni knattspyrnumanns sem neytti kókaíns í heimildamynd

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Nú er beðið eftir heimildamynd á bresku sjónvarpsstöðinni Channel 4 með mikilli eftirvæntingu en í henni á að greina frá nöfnum fjölmargra knattspyrnumanna sem féllu á lyfjaprófi. Heimildamyndin verður sýnd í kvöld.

Einn þeirra er sagður hafa neytt kókaíns þegar hann var leikmaður í ensku úrvalsdeildinni. Fullyrt er að hann hafi síðar verið seldur fyrir fleiri milljónir punda til annars félags sem hafði ekki hugmynd um málið.

Þá verður einnig greint frá nöfnum fjölmargra knattspyrnumanna sem féllu á lyfjaprófum fyrir að hafa neytt efna sem ekki eru til þess fallin til að bæta frammistöðu þeirra á vellinum. Er þá verið að meina hin ýmsu eiturlyf, svo sem kannabis og e-töflur. Sá hópur er sagður telja 43 knattspyrnumenn frá árinu 2003, samkvæmt enskum fjölmiðlum.

Rúmeninn Adrian Mutu féll á lyfjaprófi fyrir fáeinum árum þegar hann var á mála hjá Chelsea og viðurkenndi hann síðan að hafa notað kókaín. Fleiri knattspyrnumenn hafa svo gerst uppvísir að notkun eiturlyfja, svo sem Diego Maradona og Paul Merson.

Þá fékk Rio Ferdinand, leikmaður Manchester United, átta mánaða bann fyrir að gleyma lyfjaprófi í september árið 2003.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×