Enski boltinn

Comolli: Við vildum ekki selja Meireles

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Raul Meireles.
Raul Meireles. Nordic Photos / Getty Images
Damien Comolli, yfirmaður knattspyrnumála hjá Liverpool, segir að félagið hafi ekki viljað selja Raul Mereiles en að það hafi ekki átt neinna annarra kosta völ.

Meireles var seldur frá Liverpool til Chelsea á lokadegi félagaskiptagluggans í lok ágúst. Meireles sagði í viðtölum í vikunni að hann hafi farið vegna þess að forráðamenn Liverpool hafi ekki staðið við gefin loforð. Enskir fjölmiðlar fullyrða að honum hafi verið lofuð launahækkun sem hann hafi aldrei fengið.

„Ég vill sem minnst tjá mig um þetta mál en félagið hafði lofað mér ákveðnum hlutum sem ekki var staðið við,“ sagði Meireles en Comolli svaraði þessum ásökunum ekki með beinum hætti. Hann sagði hins vegar ástæðuna fyrir því að Meireles fór var að hann óskaði þess sjálfur.

„Það sem gerðist er að hann kom til okkar og sagðist vilja fara. Við vildum ekki selja hann en hann stillti okkur upp við vegg og sagðist ekki vilja spila lengur fyrir Liverpool,“ sagði Comolli í viðtali á heimasíðu Liverpool.

„Okkar viðhorf er að halda ekki leikmönnum lengur en þeir vilja. Því hafa eigendur félagsins og Kenny Dalglish knattspyrnustjóri áður lýst yfir.“

„Þetta svipaði til þess sem gerðist þegar að Fernando Torres fór í janúar. Á endanum teljum við að þetta hafi verið besta ákvörðunin fyrir hagsmuni félagsins því það er erfitt að halda leikmönnum sem ekki vilja vera áfram.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×