Enski boltinn

Van der Vaart fúll út í forráðamenn Tottenham

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Hollendingurinn Rafael van der Vaart er óánægður með þá ákvörðun að nafn hans var ekki á lista yfir þá leikmenn sem félagið má tefla fram í Evrópudeild UEFA í vetur.

Van der Vaart á við meiðsli að stríða og var upphaflega talið að hann yrði frá í tvo mánuði. Því var ákvörðunin tekin um að hafa Van der Vaart ekki á leikmannalista félagsins í Evrópukeppninni. Ef hins vegar Tottenham kemst áfram í 32-liða úrslitin er hægt að bæta við þremur nöfnum til viðbótar á listann.

Van der Vaart er meiddur aftan í læri en hefur verið í stífri meðhöndlun hjá þekktum landi í Hollandi að undanförnu. Bati hans hefur verið með undraverðum hætti og segir leikmaðurinn sjálfur að hann geti spilað aftur innan skamms.

„Englendingar hafa ekki áhuga á Evrópudeildinni - aðeins ensku úrvalsdeildinni," er haft eftir Van der Vaart í The Sun í dag. „En ég hefði gjarnan viljað fá að spila í Evrópudeildinni enda hefði það hjálpað mér að finna taktinn á ný."

Í viðtali sem birtist á heimasíðu Tottenham segir hann málið einkennilegt. „Maður hefði haldið að það hefði verið hægt að hafa samband við mig og spyrja mig út í málið. En þessu verður ekki breytt úr þessu og mun ég aðeins hugsa um að ná mér góðum fyrir leikinn gegn Liverpool."

„Ég er nokkuð viss um að ég verði orðinn heill heilsu fyrir þann leik og er það þá Dick van Toorn að þakka," sagði Van der Vaart og átti þar við áðurnefndan lækni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×