Enski boltinn

Comolli: Leikmannahópur Liverpool tilbúinn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Damien Comolli ásamt Sebastian Coates.
Damien Comolli ásamt Sebastian Coates. Nordic Photos / Getty Images
Damien Comolli, yfirmaður knattspyrnumála hjá Liverpool, segir nú að leikmannahópur félagsins sé fullmótaður og tilbúinn. Miklar breytingar hafa verið á hópnum undanfarna mánuði.

Eignarhaldsfélagið Fenway Sports Group keypti Liverpool í október árið 2010 og hafa síðan eytt um 122,8 milljónum punda í nýja leikmenn en selt fyrir um 78 milljónir punda. Munurinn er um 45 milljónir.

Alls hafa voru sjö leikmenn keyptir til félagsins árið 2011 en ellefu annað hvort seldir eða leystir undan samningi. Damien Comolli var fenginn til félagsins til að hafa yfirumsjón með þessu ferli og hann er ánægður í dag.

„Ég á erfitt með að segja að við þurfum að fá fleiri leikmenn því mér finnst leikmannahópurinn vera fullmótaður eins og er,“ sagði Comolli í viðtali á heimasíðu Liverpool. „Við erum mjög ánægðir með það sem okkur tókst að gera í þessum félagaskiptaglugga og þeim síðasta á undan líka.“

„Nú þurfum við að sjá til hvernig þessir leikmenn standa sig, hvernig þeir ná allir saman og hvernig ungir leikmenn eins og Sebastian Coates ná að aðlagast.“

Craig Bellamy er eini nýi leikmaðurinn sem var fenginn á árinu sem er yfir 27 ára aldri en hann er 32 ára.

Nýir leikmenn Liverpool: Luis Suarez, Andy Carroll, Jordan Henderson, Charlie Adam, Stewart Downing, Doni, Jose Enrique, Sebastian Coates og Craig Bellamy.

Þessir leikmenn fóru: Ryan Babel, Fernando Torres, Paul Konchesky, Milan Jovanovic, Daniel Ayala, Nabil El Zhar, Sotirious Kyrgiakos, Emiliano Insua, David Ngog, Chrisian Poulsen, Raul Meireles.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×