Íslenska 19 ára landsliðið er komið áfram í milliriðil á EM kvenna eftir sigur á Kasakstan í öðrum leik sínum í undankeppni EM en riðill íslenska liðsins fer fram á Íslandi. Íslensku stelpurnar fylgdu eftir 2-1 sigri á Slóveníu í fyrsta leik með því að vinna 3-0 sigur á Kasökum á Selfossi í dag.
Selfyssingurinn Guðmunda Brynja Óladóttir skoraði fyrsta mark leiksins á fyrstu mínútu leiksins og þær Hildur Antonsdóttir og Fjolla Shala bættu síðan við mörkum fyrir hálfleik.
Íslenska liðið bætti ekki við fleiri mörkum í seinni hálfleik en átti alls 27 skot í leiknum. Aldís Kara Lúðvíksdóttir lagði upp tvö mörk íslenska liðsins í leiknum og Hildur Antonsdóttir átti einnig eina stoðsendingu.
Ísland og Wales hafa unnið báða leiki sína í riðlinum og eru búin að tryggja sig inn í milliriðla keppninnar en Wales vann 4-1 sigur á Slóveníu í dag. Liðin mætast í hreinum úrslitaleik um sigur í riðlinum á Fylkisvelli á fimmtudaginn.
