Fótbolti

Allir leikfærir í kvöld

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Osló skrifar
Ólafur Jóhannesson, þjálfari íslenska landsliðsins.
Ólafur Jóhannesson, þjálfari íslenska landsliðsins. Mynd/Anton
Ólafur Jóhannesson, þjálfari íslenska landsliðsins, sagði í gær að hann ætti von á því að allir leikmenn liðsins yrðu klárir í slaginn gegn Noregi í kvöld.

„Undirbúningurinn hefur verið hefðbundinn og gengið nokkuð vel," sagði Ólafur á blaðamannafundi í Osló í gær. „Auðvitað er eitthvað um smávægileg meiðsli hér og þar en ég veit að allir leikmenn verða leikfærir þegar leikurinn hefst á morgun."

Hann segist nokkurn veginn búinn að ákveða byrjunarliðið í kvöld en vildi ekki gefa það upp. Hann ætlar að halda sér við leikkerfið 4-3-3 og spila með tvo varnartengiliði.

Kristján Örn Sigurðsson tekur út leikbann í kvöld og verður því ekki með liðinu. Hann er engu að síður staddur hér ytra með landsliðinu enda leikur hann með Hönefoss í norsku B-deildinni.

Þar sem Hermann Hreiðarsson er meiddur er búist við því að Indriði Sigurðsson muni spila við hlið Sölva Geirs Ottsen í hjarta íslensku varnarinnar. Hjörtur Logi Valgarðsson muni þá leysa stöðu vinstri bakvarðar fyrir Indriða.

Eggert Gunnþór Jónsson verður annar varnartengiliður Íslands í dag en þar sem bæði Aron Einar Gunnarsson og Ólafur Ingi Skúlason eru fjarverandi vegna meiðsla má búast við því að Helgi Valur Daníelsson spili við hlið Eggerts á miðjunni.

Heiðar Helguson er sömuleiðis frá vegna meiðsla en hann hefur spilað alla leiki Íslands í undankeppninni til þessa. Kolbeinn Sigþórsson mun mjög líklega spila sem fremsti sóknarmaður Íslands í kvöld, með Eið Smára Guðjohnsen fyrir aftan sig og þá Rúrik Gíslason og Jóhann Berg Guðmundsson á köntunum tveimur.

Stefán Logi Magnússon mun væntanlega verja mark Íslands í kvöld og Birkir Már Sævarsson verður líklega í stöðu hægri bakvarðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×