Fótbolti

Mikil forföll í norska landsliðinu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Osló skrifar
John Arne Riise er meiddur.
John Arne Riise er meiddur. Mynd/Nordic Photos/Getty
Egil Olsen, landsliðsþjálfari Noregs, neyðist til að stilla upp nokkuð breyttu liði gegn Íslandi í kvöld frá síðustu leikjum sínum í undankeppni EM 2012.

Nokkuð er um meiðsli í norska landsliðinu en þeir John Arne Riise og Morten Gamst Pedersen, leikmenn Fulham, hafa báðir þurft að draga sig úr hópnum vegna meiðsla. Þá er yngri bróðir Riise, Björn Helge, að jafna sig eftir meiðsli og verður tæplega með í kvöld. Hann er þó í hópnum.

Þá er John Carew ekki í góðu leikformi eins og stendur en samkvæmt norskum fjölmiðlum er hann einfaldlega of þungur. Þeir veðja á að Carew verði ekki í byrjunarliði Noregs í kvöld, heldur Moa, framherji þýska liðsins Hannover 96.

Sá hefur byrjað leiktíðina mjög vel í Þýskaland og skorað þrjú mörk í fjórum deildarleikjum auk þess að skora eitt mark í Evrópudeildinni.

Ólafur Jóhannesson, landsliðsþjálfari, sagði á blaðamannafundi íslenska landsliðsins í gær að þetta muni varla koma til með að veikja norska liðið.

„Þeir (John Arne) Riise og Pedersen eru báðir frábærir leikmenn sem eru að spila með stóru liði í boltanum. Auðvitað er slæmt fyrir Norðmenn að missa út allan vinstri vænginn sinn en ég veit ekki hvort þetta muni veikja liðið þeirra,“ sagði Ólafur.

„Það er greinilegt að sjálfstraustið í norska liðinu er svo mikið að það er nánast sama hver kemur þangað inn. Þeir eiga marga fína fótboltamenn og ég held að það skipti litlu máli hverjir koma inn í þeirra stað. Norðmenn munu alltaf geta stillt upp öflugu liði.“

Noregur vann góðan 3-0 sigur á Tékklandi í síðasta æfingaleik sínum og eru því á miklu og góðu skriði. Áðurnefndur Moa skoraði tvö marka Noregs en hann skoraði sitt fyrsta landsliðsmark gegn Íslandi á Laugardalsvelli í fyrra.



Hér fyrir neðan má sjá líklegt byrjunarlið Norðmanna í kvöld:

Markvörður: Rune Jarstein, Viking.

Hægri bakvörður: Tom Högli, Club Brugge.

Miðverðir: Brede Hangeland, Fulham og Kjetil Wæhler, Álaborg.

Vinstri bakvörður: Espen Ruud, OB.

Varnartengiliður: Henning Hauger, Hannover 96.

Sóknartengiliðir: Christian Grindheim, FCK og Alexander Tettey, Rennes.

Hægri kantur: Erik Huseklepp, Portsmouth.

Vinstri kantur: Jonathan Parr, Crystal Palace.

Sóknarmaður: Mohammed Abdellaoue (Moa), Hannover 96.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×