Fótbolti

Stefán Logi: Gott að eyða óvissunni um landsliðsþjálfarastarfið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Osló skrifar
Landsliðsmarkvörðurinn Stefán Logi Magnússon segir að það hafi verið gott að eyða þeirri óvissu sem ríkti um stöðu landsliðsþjálfarnan fyrir leikinn gegn Noregi í kvöld.

„Menn eru jákvæðir og hlakka til að mæta í þennan leik," sagði Stefán Logi um leikinn gegn Noregi en liðin mætast á Ullevaal-leikvanginum í Osló. Viðtalið má sjá í heild sinni hér fyrir ofan eða með því að smella hér.

Tilkynnt var í síðustu viku að landsliðsþjálfarinn Ólafur Jóhannesson myndi ekki halda áfram með liðið að lokinni undankeppni EM 2012. Stefán Logi segir að það hafi verið gott að eyða þeirri óvissu.

„Ég held að þetta hafi verið gott fyrir alla aðila - okkur leikmenn, land og þjóð og eflaust blaðamenn líka. Þetta hefur verið neikvætt umræðuefni sem þurfti að ýta til hliðar svo við getum einbeitt okkur að þessum síðustu þremur leikjunum í undankeppninni."

„Að öðru leyti hefur þetta ekki mikla þýðingu fyrir okkur nema að núna vita menn hvað muni gerast. Í raun vissu allir í hvað stefndi og er það fínt að þessu máli sé bara lokið."

Stefán Logi segir að leikmennirnir hafi ekki rætt sín á milli hvern þeir vilja fá sem næsta landsliðsþjálfara. „Það eru eflaust einhverjir sem hafa skoðanir á því. Það sem er mikilvægast er að KSÍ fari yfir þetta mál og finni bestu lausnina."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×