Fótbolti

Portúgalir með fjögur mörk á Kýpur - Ronaldo skoraði tvö

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cristiano Ronaldo.
Cristiano Ronaldo. Mynd/Nordic Photos/Getty
Kýpverjar koma til Íslands með skottið á milli lappanna eftir 0-4 tap á heimavelli á móti Portúgal í undankeppni EM í kvöld en eftir þennan örugga sigur eru Portúgalir í efsta sæti í riðli Íslands. Cristiano Ronaldo skoraði tvö mörk fyrir portúgalska liðið sem lék manni fleiri frá 34. mínútu.

Cristiano Ronaldo skoraði fyrsta markið úr vítaspyrnu á 35. mínútu en mínútu áður hafði Kýpurbúinn Sinisa Dobrasinovic fengið sitt annað gula spjald. Sinisa Dobrasinovic verður því í leikbanni á móti Íslandi á Laugardalsvellinum á þriðjudaginn.

Cristiano Ronaldo skoraði annað mark Portúgala á 82. mínútu og varamennirnir Hugo Almeida og Danny bættu síðan við mörkum á síðustu sex mínútum leiksins.

Portúgal er með 13 stig eins og Noregur en markatala liðsins er 15-7 á móti 7-4 hjá Norðmönnum. Portúgal fékk aðeins eitt stig út úr fyrstu tveimur leikjum sínum en liðið hefur síðan unnið fjóra leiki í röð.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×