Fótbolti

Kolbeinn: Við verðum að skapa fleiri færi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Osló skrifar
Kolbeinn Sigþórsson komst ekki mikið í boltann þegar Ísland tapaði 0-1 fyrir Noregi í undankeppni EM í Osló í kvöld. Íslenska liðið ógnaði lítið fram á við og Kolbeinn vill að liðið spili betri sóknarleik.

„Þetta var ekki nógu gott því við vorum ekki að spila nógu góðan sóknarleik. Varnarleikurinn var kannski fínn því við gáfum ekki mark fyrr en þarna í endann," sagði Kolbeinn eftir leikinn.

„Það var hrikalega svekkjandi að fá þetta mark á sig en við vorum ekki að skapa neina færi fyrir utan eitt í fyrri hálfleik og eitt í seinni hálfleik. Það er ekki nóg og við vorum ekki mikið með boltann. Það var því erfitt að reyna að skapa eitthvað þarna frammi," sagði Kolbeinn sem náði ekki skot að marki í leiknum.

„Það vantaði herslumuninn og að hafa trúna á að komast í gegn. Við vorum að halda boltanum vel sérstaklega í byrjun seinni hálfleiks en svo duttum við í kæruleysi, fórum að falla til baka og létum þá vera með boltann," segir Kolbeinn.

„Mér fannst þetta ekki nógu gott sóknarlega en varnarlega hefðum við átt að halda hreinu. Það var hrikalega svekkjandi að þetta mark datt hjá þeim í lokin," sagði Kolbeinn en það er stutt í næsta leik sem er á heimavelli á móti Kýpur á þriðjudaginn.

„Það er ekki mikið sem maður getur tekið jákvætt úr þessum leik inn í Kýpurleikinn en við héldum þó boltanum vel á köflum. Við mættum vera meira þolinmóðir í spilinu og opna leikinn meira. Við verðum að skapa fleiri færi," sagði Kolbeinn en það má sjá allt viðtalið með því að smella hér fyrir ofan.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×