Fótbolti

Capello: Enska landsliðið hræðist það ekki að spila á Wembley

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Fabio Capello.
Fabio Capello. Mynd/Nordic Photos/Getty
Enska landsliðið hefur ekki gengið vel í síðustu heimaleikjum sínum á Wembley-leikvanginum og nú er svo komið að liðið hefur ekki unnið í fjórum síðustu heimaleikjum sínum. England fær Wales í heimsókn á morgun í undankeppni EM og landsliðsþjálfarinn Fabio Capello var að sjálfsögðu spurður út í slakt gengi á Wembley á blaðamannafundi fyrir leikinn.

Enska landsliðið vann síðast leik á Wembley á móti Búlgaríu í september í fyrra en síðan þá hefur liðið gert jafntefli við Svarfjallaland, Ghana og Sviss auk þess að tapa í vináttulandsleik á móti Frakklandi.

„Heilt yfir þá erum við með góðan árangur á heimavelli því við erum búnir að vinna ellefu leiki. Það óttast enginn minna leikmanna það að spila á Wembley. Við erum með marga hæfileikaríka menn sem eru hættulegir þegar þeir fá pláss. Í heimaleikjunum taka andstæðingar okkar litla áhættu og loka svæðunum sem gerir okkur erfitt fyrir," útskýrði Fabio Capello á blaðamannfundinum.

„Þegar þú skorar mark þá breytist leikurinn. Ef þú þarf að skora mark þá er staðan allt öðruvísi," sagði Capello.

Síðustu fimm heimaleikir enska landsliðsins:

England-Búlgaría 4-0 (september 2010)

England-Svartfjallaland 0-0 (október 2010)

England-Frakkland 1-2 (nóvember 2010)

England-Gana 1-1 (mars 2011)

England 2-2 Sviss (júní 2011 )






Fleiri fréttir

Sjá meira


×