Fótbolti

Nicklas Bendtner afgreiddi Norðmenn á Parken

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nicklas Bendtner fagnar í kvöld.
Nicklas Bendtner fagnar í kvöld. Mynd/AFP
Nicklas Bendtner skoraði bæði mörk Dana sem unnu 2-0 sigur á Noregi í kvöld í toppslag í okkar riðli í undankeppni EM 2012. Bendtner sem fór á dögunum á láni frá Arsenal til Sunderland sá til þess að Danir eru nú í mun betri stöðu en Norðmenn í baráttunni um sæti í úrslitakeppninni.

Danirnir voru miklu sterkari strax frá byrjun og það var fljótlega ljóst að þetta yrði langt og erfitt kvöld fyrir norska landsliðið.

Nicklas Bendtner skoraði fyrra mark sitt af stuttu færi á 24. mínútu eftir frábæran undirbúning frá Dennis Rommedahl. Christian Eriksen átti líka stóran þátt í markinu.

Bendtner skoraði seinna markið sitt á 44. mínútu með skoti fyrir utan teig eftir samvinnu við Christian Eriksen. Fleiri urðu mörkin ekki í leiknum því ekkert var skorað í seinni hálfleiknum.

Danir náðu Portúgal og Noregi að stigum með þessum sigri og hafa nú öll liðin þrettán stig a toppi riðilsins. Danmörk og Portúgal hafa reyndar leikið leik færra en Norðmenn en sá leikur er innbyrðisleikur þeirra í Kaupmannahöfn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×