Enski boltinn

Parker fer fram á sölu - Tottenham líklegur áfangastaður

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Parker í landsleik gegn Sviss á dögunum.
Parker í landsleik gegn Sviss á dögunum. Nordic Photos / Getty Images
Enski landsliðsmaðurinn Scott Parker hefur farið fram á sölu frá West Ham. Tíðindin þykja renna stoðum undir sögusagnir undanfarinna daga að hann sé á leiðinni til Tottenham.

„Ég hef átt fjögur frábær ár hjá West Ham og gleymi aldrei stuðningsmönnunum sem hafa verið frábærir í minn garð líkt og allir sem félaginu tengjast,“ segir Parker í viðtali á heimasíðu félagsins.

Parker segir knattspyrnustjórann og stjórnina hafa reynt að telja honum hughvarf en hann þurfi einfaldlega að spila knattspyrnu í hæsta gæðaflokki, ekki síst til þess að koma til greina í landsliðið hjá Englandi.

Harry Redknapp, stjóri Tottenham, hefur látið hafa eftir sér að hann reikni með að gengið verði frá kaupunum eins fljótt og auðið er. Hann reiknar ekki með því að það verði vandamál að ljúka þeim áður en félagaskiptaglugganum verður lokað í kvöld.

Parker hefur komið víða við á löngum ferli. Hann sló fyrst í gegn hjá Charlton og var keyptur til Chelsea þar sem tækifærin voru af skornum skammti. Næsti viðkomustaður var Newcastle áður en hann gekk til liðs við West Ham.

Parker hefur spilað sex landsleiki fyrir England.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×