Enski boltinn

Liverpool vann tíu menn Arsenal - Arsenal á enn eftir að skora

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Nordic Photos/Getty
Liverpool fagnaði sínum fyrsta sigri á Emirates-leikvanginum og jafnframt sínum fyrsta útisigri á Arsenal í ellefu ár þegar liðið vann 2-0 sigur á Arsenal í ensku úrvalsdeildinni í dag.

Luis Suárez kom inn á sem varamaður eftir að Liverpool varð manni fleiri á 70. mínútu og átti mikinn þátt í báðum mörkum liðsins. Fyrra markið var klaufalega sjálfsmark þar sem Luis Suárez var allt í öllu í undirbúningnum og Úrúgvæmaðurinn skoraði síðan seinna markið sjálfur eftir sendingu frá Raúl Meireles sem hafði líka komið inn á sem varamaður.

Tveir ungir leikmenn Arsenal vilja örugglega gleyma þessum leik sem fyrst, Emmanuel Frimpong, sem var rekinn útaf og Ignasi Miquel, sem skaut boltanum í samherja og í eigið mark. Arsenal-menn eru því bara búnir að skora í eigið mark á fyrstu 180 mínútum sínum á nýrri leiktíð í ensku úrvalsdeildinni.

Bæði lið áttu sína spretti í fyrri hálfleiknum en það skilaði sér ekki í mörkum. Samir Nasri var í byrjunarliðinu og var mjög nálægt því að koma sínum mönnum í 1-0 í fyrri hálfleiknum.

Arsenal-liðið virtist vera komið í gang um miðjan seinni hálfleik þegar þeir misstu hinn unga Emmanuel Frimpong af velli með rautt spjald. Hann fékk þá sitt annað gula spjald og Arsenal lék því síðustu 20 mínútur leiksins manni færri.

Luis Suárez kom inn á sem varamaður strax eftir að Liverpool varð manni fleiri og hann átti mikinn þátt í fyrsta markinu sem kom á 77. mínútu eftir samspil Suárez og annars varamanns, Raúl Meireles.

Ignasi Miquel ætlaði að hreinsa boltann frá en skaut þess í stað í Aaron Ramsey og þaðan fór boltinn í eigið mark. Markið átti reyndar ekki að vera dæmt gilt því Suárez var rangstæður í undirbúningi þess.

Luis Suárez innsiglaði síðan sigurinn á 89. mínútu eftir laglega sókn og sendingu frá Raúl Meireles.

Hér fyrir neðan má sjá allar helstu upplýsingar um framvindu leiksins sem og leikmannahópa liðanna.

Staðan í ensku úrvalsdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×