Enski boltinn

Óvæntur sigur QPR á Goodison Park - Blackburn í slæmum málum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Tommy Smith fagnar marki sínu.
Tommy Smith fagnar marki sínu. Nordic Photos/Getty
Nýliðar QPR unnu óvæntan 1-0 sigur á Everton í viðureign liðanna á Goodison Park í dag. Tommy Smith skoraði eina mark leiksins í fyrri hálfleik.

QPR steinlá í fyrstu umferðinni á heimavelli gegn Bolton 0-4. Það reiknuðu því fæstir með því að lærisveinar Neil Warnock ættu erindi í Everton-menn en annað kom á daginn.

Everton var reyndar sterkari aðilinn í leiknum en var í mestu vandræðum með að skapa sér færi. Tim Cahill skallaði reyndar framhjá fyrir opnu marki í fyrri hálfleik. Það átti eftir að reynast dýrt.

Tommy Smith kom QPR yfir á 30. mínútu með fallegu skoti úr teignum og markið reyndist það eina í leiknum. Everton sótti án afláts í síðari hálfeliknum en tókst ekki að skapa sér almennileg færi.

Leikurinn var sá fyrsti hjá Everton á tímabilinu en viðureign liðsins gegn Tottenham í fyrstu umferð var frestað vegna óeirðanna í Lundúnum. QPR er með þrjú stig að loknum tveimur umferðum.





Slæm byrjun hjá BlackburnAston Villa vann öruggan 3-1 sigur á Blackburn á Villa Park í dag. Gabriel Agbonlahor kom Villa yfir á 11. mínútu með fallegu skoti og Emile Heskey bætti öðru marki við á 24. mínútu.

Norðmaðurinn Morten Gamst Pedersen minnkaði muninn fyrir lærisveina Steve Kean í síðari hálfleiknum. Darren Bent skoraði hins vegar þriðja markið um miðjan síðari hálfelikinn og tryggði 3-1 sigur.

Blackburn hefur tapað fyrstu tveimur leikjum sínum í deildinni en liðinu var spáð slæmu gengi á tímabilinu. Villa fer ágætlega af stað en liðið gerði markalaust jafntefli gegn Fulham um síðustu helgi.

Fyrsta stig SwanseaSwansea náði í sitt fyrsta stig í ensku úrvalsdeildinni þegar liðið gerði markalaust jafntefli á heimavelli gegn Wigan.

Swansea var meira með boltann í leiknum en Wigan skapaði sér hættulegri færi. Wigan skaut bæði í stöng og slá áður en liðið fékk kærkomið tækifæri til þess að tryggja sér stigin þrjú úr vítaspyrnu. Ben Watson steig á punktinn á Hollendingurinn Michel Vorm varði spyrnu Watson.

Swansea komið með eitt stig úr sínum fyrstu tveimur leikjum en Wigan gert jafntefli við nýliða í tveimur fyrstu umferðum og er með tvö stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×