Fótbolti

Robbie Keane: Ég er ekki kominn hingað til að slappa af

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Robbie Keane með þeim Landon Donovan og David Beckham.
Robbie Keane með þeim Landon Donovan og David Beckham. Mynd/Nordic Photos/Getty
Robbie Keane segist ekki vera mættur til Los Angeles til að njóta ljúfa lífsins en hann yfirgaf ensku úrvalsdeildina í vikunni og samdi við Los Angeles Galaxy, lið David Beckham.

„Ég er ekki kominn hingað til að slappa af eða að fara í frí. Ég er kominn hingað til að vinna leiki og skora fullt af mörkum," sagði hinn 31 árs gamli fyrirliði írska landsliðsins sem spilar væntanlega sinn fyrsta leik með Galaxy í kvöld.

„Ég er mjög spenntur fyrir að fá þetta tækifæri. Ég vonast til að ná hér árangri með liðinu," sagði Keane.

Galaxy keypti Keane á um 3,5 milljónir punda frá Tottenham og á blaðamannafundinum með honum voru stórstjörnur liðsins, David Beckham og Landon Donovan, og þjálfarinn Bruce Arena.

„Það hafa verið gerðar væntingar til mín síðan að ég var 17 ára. Þetta er undir mér sjálfum komið. Ég spilaði lengi í ensku úrvalsdeildinni og fannst vera kominn tími á nýja áskorun," sagði Keane sem hefur spilað með Liverpool, Inter Milan, Celtic, Wolverhampton Wanderers, West Ham United, Leeds United og Coventry City á sínum ferli.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×