Enski boltinn

Villas-Boas: Fólkið heimtar meistaratitil og við heyrum það vel

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Andre Villas-Boas.
Andre Villas-Boas. Mynd/Nordic Photos/Getty
Andre Villas-Boas, stjóri Chelsea, kenndi kvíða og spennu um það hversu illa gekk framan af leik í 2-1 sigri Chelsea á West Brom í gær en þetta var fyrsti heimaleikur liðsins í ensku úrvalsdeildinni undir hans stjórn.

„Við vorum að glíma við kvíða og spennu í fyrri hálfleiknum af því að við fengum mark á okkur svona snemma í leiknum. Við náðum því ekki að spila okkar leik," sagði Andre Villas-Boas.

„Við ræddum um það í hálfleik að menn þurftu að slaka aðeins á og fara að losa sig við spennuna. Áhorfendurnir voru orðin óþolinmóðir og leikmennirnir fundu vel fyrir því. Við ræddum um það að það væru enn 45 mínútur eftir af leiknum og allt gæti gerst. Það gerði það líka," sagði Villas-Boas.

Frakkarnir Nicolas Anelka og Florent Malouda skoruðu í seinni hálfleiknum og tryggðu Chelsea öll þrjú stigin.

„Þegar þú nærð að jafna leik í 1-1 í svona stöðu þá er það mikill andleg sjokk fyrir mótherjann og við vorum því sannfærðir um að ná að skora sigurmarkið sem síðan tókst," sagði Villas-Boas.

„Þetta lið vill verða meistari á ný. Fólkið heimtar meistaratitil og við heyrum það vel," sagði Villas-Boas.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×