Enski boltinn

Manchester City með fullt hús eftir sigur í markaleik í Bolton

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Nordic Photos/Getty
Manchester City menn byrja tímabilið vel í ensku úrvalsdeildinni því liðið vann 3-2 útisigur á Bolton í kvöld. City hefur því fengið sex stig og skorað sjö mörk í fyrstu tveimur leikjum sínum á leiktíðinni og situr í toppsæti deildarinnar.

Manchester City náði tvisvar tveggja marka forystu í leiknum, 2-0 og 3-1 en Bolton menn náðu í bæði skiptin að minnka muninn í eitt mark. Nær komust Grétar Rafn Steinsson og félagar þó ekki í leiknum og City-menn fögnuðu góðum útisigri en bæði liðin höfðu unnið 4-0 sigur í fyrstu umferðinni.

David Silva kom City í 1-0 á 26. mínútu með skoti fyrir utan teig en boltinn fór hreinlega í gegnum Jussi Jääskelainen í marki Bolton. Jaaskelainen átti hinsvegar ekki möguleika á því að verja þrumuskot Gareth Barry á 38. mínútu en Barry kom þá City í 2-0 með flottu skoti fyrir utan teig.

Ivan Klasnic minnkaði muninn fyrr Bolton strax á næstu mínútu með góðu skoti eftir sendingu frá Martin Petrov og staðan var því 2-1 í hálfleik.

Edin Dzeko kom City í 3-1 í upphafi seinni hálfleiksins eftir langa sendingu frá James Milner en Kevin Davies minnkaði muninn á 63. mínútu með skalla eftir fyrirgjöf fá Martin Petrov.

Sergio Agüero náði ekki að skora í leiknum en var oft mjög nálægt því í fyrri hálfleiknum. Hann fór síðan útaf fyrir Carlos Tévez á 68. mínútu.

Hér fyrir neðan masjá allar helstu upplýsingar um framvindu leiksins sem og leikmannahópa liðanna.

Staðan í ensku úrvalsdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×