Enski boltinn

Modric ekki með gegn United

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Luka Modric í leik með Tottenham á undirbúningstímabilinu.
Luka Modric í leik með Tottenham á undirbúningstímabilinu. Nordic Photos / Getty Images
Harry Redknapp, stjóri Tottenham, segir að Luka Modric muni ekki spila með liðinu gegn Manchester United í kvöld.

„Hann mun ekki spila. Hann er með hugann við eitthvað allt annað,“ sagði Redknapp en Modric hefur verið sterklega orðaður við Chelsea í allt sumar.

„Við þurfum á honum að halda enda mjög mikilvægur leikmaður í okkar liði. Þetta er eitthvað sem þarf að laga,“ bætti hann við.

Spánverjinn Juan Mata er á leið til Chelsea fyrir 23,5 milljónir punda og vonast Redknapp til þess að það verði til þess að Modric geti hætt að hugsa um þá bláklæddu.

Tottenham hefur þegar hafnað tilboðum upp á 22 og 27 milljónir punda í Modric og hefur stjórnarformaður Tottenham, Daniel Levy, sagt að leikmaðurinn sé ekki til sölu - sama hvað.

„Ég held að formaðurinn sé búinn að ákveða sig og þar með er málið útrætt. Luka verður bara að sætta sig við þetta og vonandi mun hann eiga gott tímabil með okkur.“

Redknapp hefur ekki útilokað að bæta við leikmönnum í hópinn. Segir hann að til greina komi að fá Emmanuel Adebayor að láni frá Manchester City. „En við ætlum ekki að borga öll launin hans og því veit ég ekki alveg hvernig staðan er á því máli nú.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×