Enski boltinn

Mancini vill fá Nasri fyrir miðvikudaginn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Samir Nasri í leiknum um helgina.
Samir Nasri í leiknum um helgina. Nordic Photos / Getty Images
Roberto Mancini vonast til að hægt verði að ganga frá kaupunum á Samir Nasri frá Arsenal fyrir leik liðsins gegn Udinese í forkeppni Meistaradeildar Evrópu á miðvikudaginn.

Mancini er knattspyrnustjóri Manchester City sem keppir einnig í Meistaradeildinni í vetur. Arsene Wenger, stjóri Arsenal, hefur gefið í skyn að Nasri muni mögulega spila gegn Udinese en þá væri hann ekki gjaldgengur í keppninni með öðrum liðum.

„Það væri mikið og stórt vandamál ef hann myndi spila í þeim leik en ég er viss um að við getum klárað þetta mál á næsta sólarhring - kannski tveimur.“

„En það er mikilvægt að hann geti spilað með okkur í öllum leikjum,“ sagði Mancini.

Wenger hefur látið hafa eftir sér í frönskum fjölmiðlum að það væri enn langt í land með að gengið yrði frá sölunni. „Hann er ánægður hér hjá okkur. Nasri er ekki á förum eins og er,“ sagði Wenger.

Nasri spilaði með Arsenal er liðið tapaði fyrir Liverpool um helgina og bárust þá fregnir af því að viðræður á milli félaganna hefðu siglt í strand. Það reyndist þó ekki rétt en samkvæmt heimildum fréttastofu BBC liggja grunnatriði kaupsamningsins fyrir. Hins vegar eigi eftir að ganga frá nokkrum lausum endum enn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×