Fótbolti

Verkfalli verkamanna á Maracana-vellinum lokið

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Maracana-völlurinn í Ríó de Janeiro.
Maracana-völlurinn í Ríó de Janeiro. Nordic Photos/Getty Images
Brasilískir verkamenn sem unnið hafa að endurbótum á Maracana-vellinum í Ríó hafa snúið aftur til vinnu að loknu verkfalli. Verkamennirnir voru ósáttir við öryggi á vinnustaðnum og laun sín.

Verkamennirnir fóru í verkfall síðastliðinn miðvikudag eftir að einn þeirra slasaðist illa þegar að olíutunna með efnaúrgangi sprakk. Verkalýðsfélagið segir byggingarverktakann sem hefur umsjón með endurbótunum hafa gengið að flestum kröfum verkamannana.

„Við erum sáttir, þess vegna höfum við snúið aftur til vinnu í dag," sagði Romildo Vieira talsmaður verkalýðsfélagsins við Reuters fréttastofuna. Um 2000 verkamenn vinna að endurbótunum á þremur vöktum.

Úrslitaleikur HM 2014 á að fara fram á Maracana-vellinum auk þess sem hann á að nota í Álfukeppninni sumarið 2013. Talið er að endurbæturnar muni kosta um 630 milljónir dollara eða sem nemur tæpum 72 milljörðum íslenskra króna.

Úrslitaleikur HM 1950 í Brasilíu fór fram á Maracana-vellinum. Talið er að tæplega 200 þúsund áhorfendur hafi verið á vellinum. Í dag tekur hann rúmlega 80 þúsund áhorfendur í sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×