Enski boltinn

Adebayor kominn til Tottenham - á láni frá Manchester City

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Emmanuel Adebayor fagnar marki á móti Tottenham í vor.
Emmanuel Adebayor fagnar marki á móti Tottenham í vor. Mynd/Nordic Photos/Getty
Emmanuel Adebayor mun spila með Tottenham í ensku úrvalsdeildinni í vetur eftir að félagið gekk frá lánsamningi við Manchester City í kvöld. Adebayor var meðal áhorfenda á White Hart Lane í kvöld á seinni leik Tottenham og Hearts í forkeppni Evrópudeildarinnar.

Adebayor á ekki neina framtíð undir stjórn Roberto Mancini, stjóra Manchester City, sem lánaði hann til Real Madrid á seinni hluta síðasta tímabils. Adebayor fékk ekki einu sinni að fara með City í æfingaferðina til Bandaríkjanna fyrir tímabilið.

Adebayor hefur skorað ófá mörk gegn Tottenham í gegnum tíðina, bæði sem leikmaður Arsenal (8 mörk) og þá skoraði hann tvö mörk fyrir Real Madrid á móti Tottenham í Meistaradeildinni á síðustu leiktíð.

Manchester City keypti Emmanuel Adebayor frá Arsenal fyrir 20 milljónir punda árið 2009 og hann er með samning við félagið til ársins 2014. Það tók lengstan tíma hjá forráðamönnum City og Spurs að semja um launagreiðslur leikmannsins en breskir fjölmiðlar hafa skrifað um það að Adebayor fái 170 þúsund pund í vikulaun hjá City eða 19,5 milljónir íslenskra króna.

Það fylgir ekki sögunni hvort Tottenham megi nota Emmanuel Adebayor um næstu helgi en liðið mætir þá einmitt liði Manchester City á White Hart Lane.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×