Enski boltinn

Liverpool ætlar að leyfa Joe Cole að tala við Tottenham

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Joe Cole byrjaði Liverpool-ferilinn á því að fá rautt spjald á móti Arsenal.
Joe Cole byrjaði Liverpool-ferilinn á því að fá rautt spjald á móti Arsenal. Mynd/Nordic Photos/Getty
Guardian segir frá því í kvöld að Liverpool sé tilbúið að láta Joe Cole fara til Tottenham sem er að flestra mati eitt af þeim liðum sem mun koma til með að keppa við Liverpool um Meistaradeildarsæti í ensku úrvalsdeildinni á þessu tímabili.

Joe Cole var aðeins í byrjunarliðinu í níu deildarleikjum með Liverpool á síðasta tímabili (20 leikir, 2 mörk, 1 stoðsending) og Kenny Dalglish hefur ekki valið hann í hópinn í fyrstu tveimur leikjunum á nýju tímabili.

Cole er nær örugglega á leiðinni aftur til London eftir misheppnaða dvöl sína í Bítlaborginni því Queens Park Rangers hefur einnig áhuga á honum. Cole lék með Lundúnaliðunum West Ham og Chelsea áður en hann lagði í ævintýrið til Liverpool.

Joe Cole er 29 ára gamall og hefur skorað 40 mörk í 329 leikjum í ensku úrvalsdeildinni en hann vann ensku deildina og enska bikarinn þrisvar sinnum með Chelsea.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×